þriðjudagur, maí 03, 2005

Qu´est-ce que´il y a?

Bjarni, ég vil biðjast fyrirgefningar á því þegar ég reyndi að halda því fram að blog.central síður væru skemmtilegri en blogspot. Ég tek það allt til baka núna. Blog.central er bara eitthvað helvítis shit sem er bloggheiminum til skammar.
Húff.. allir voru svo duglegir að blogga að ég fékk minnimáttarkennd og hef ákveðið að byrja aftur eftir 3 mánaða hlé..

Ég tók próf í íslenskri ritgerð í dag.. skrifaði rökfærsluritgerð um hækkun á bílprófsaldrinum.. ég var á móti. Á ritgerðinni mátti glögglega sjá að ég hafði verið í félagsfræðiprófi nokkrum dögum fyrir þar sem að ég notaði orð eins og "félagsleg mótun" og "víxluð mótun" í ritgerðinni. En við skulum vona að íslenskukennarar skilji líka félagsfræði og viti þá um hvað ég var að tala.

Það var rosalega fjölbreytt fólk í rútunni á leiðinni heim í dag. Mér fannst það sniðugt því að yfirleitt er þetta alltaf sama pakkið. Það var indverskur gaur að læra arkítektúr, svo var gömul kona sem hafði verið hjá lækni í Reykjavík og vildi taka rútuna heim til Keflavíkur. Svo voru tveir öldungar frá Philadelfiu söfnuðinum, samt alveg kornungir. Að vera öldungur er víst ekki bara það sama og að vera gamall. En skemmtilegastur fannst mér þó róninn. Hann kom í rútuna á bsí og spurði bílstjórann hvort það væri löglegt að fá að fara fram og tilbaka með rútunni.. hann langaði bara að skoða sig um í Keflavík. Bílstjórinn spurði kurteisislega hvort að hann væri nokkuð undir áhrifum áfengis, róninn þvertók fyrir það, nú þá sagði bílstjórinn að honum væri guðvelkomið að fara fram og tilbaka með rútunni en þyrfti þó að borga 1700kr.

En nú er ég komin heim og búin að klára alla þá möndluköku sem var til á heimilinu og held ég að nú væri viturt að fara að lesa smá í ensku.