laugardagur, júlí 19, 2008

Fortíðarþrá..

Ég var beðin um að vinna þennan dag á Listasafni Duus en eins og flestir vita vann ég þar eitt sumar fyrir tveimur árum síðan. Þótt ótrúlegt megi virðast þá finnst mér yndislegt að koma hingað aftur. Gömlu karlarnir sem koma og benda mér á skipin sem þeir höfðu sjálfir unnið á eru svo skemmtilegir og útlendingarnir eru alltaf hressir.
Ótrúlegt hvað manni finnst aðstæður alltaf breytast og líður eins og ekkert geti verið í föstum skorðum, en bara við það eitt að vinna einn dag á gömlum vinnustað fullvissir mann um að sumir hlutir breytast aldrei.
Jón Baldvin, svarti kötturinn í nágrenninu, kemur til dæmis hingað ennþá og fær mjólk. Meðferðin sem hann fær hér hefur þó breyst til hins betra því í staðinn fyrir g-mjólk á pappadisk hefur hann nú fengið sína eigin skál með kattarmat og aðra við hliðina á henni sem inniheldur g-mjólkina. Þess má geta að hann liggur ofan á skrifborðinu malandi meðan ég skrifa þetta.
Bjössi og Grímur koma ennþá reglulega til að spjalla og í stað þess að sitja og lesa Animal Farm eftir Orwell þegar lítið er að gera, sit ég hér tveimur árum síðar og les 1984 eftir Orwell.
Vá hvað mér þykir vænt um þetta safn.